Þorsteinn Jóhannsson (1918 – 1998) var fæddur á Hnappavöllum í Öræfum, sonur Jóhanns Þorsteinssonar bónda þar og Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju. Þorsteinn kvæntist Sigrúnu Pálsdóttur frá Svínafelli og bjó þar frá árinu 1947 og var þar frá þeim tíma bóndi ásamt mági sínum Jóni Pálssyni. Þorsteinn gegndi ýmsum störfum í sveit sinni, var m. a. kennari, formaður Ungmennafélags Öræfa í mörg ár, í sóknarnefnd Hofshrepps 1958-1997. Hann var í hreppsnefnd Hofshrepps 1962-1994, þar af oddviti árin 1981-1994, svo fátt eitt sé nefnt. Þorsteinn var bókamaður og mikill unnandi Njálu, sjálfur Svínfellingurinn. Eftir hann liggur mikill fjöldi ljóða og vísna sem gefin voru út í bókinni Undir breðans fjöllum – Ljóð og lausavísur -.

Hér fylgir sýnishorn af ljóðum Þorsteins, Músarrindillinn, en þennan fugl má oft sjá í birkivöxnum lækjarbökkum ofan við Svínafellsbæina. Um tilurð kvæðisins ritar Þorsteinn:

“Ég stundaði barnakennslu í Öræfum. Skólinn var á Hofi. Áður en sveitarvötnin voru brúuð hafði ég aðsetur á Hofi yfir skólatímann og fór varla heim nema um helgar. Sama gilti um nemendur, sem áttu heima annars staðar en á Hofi. Í helgarfríum fór ég oft gangandi milli bæja. Morgunn einn var veður stillt og blítt en það sem vakti sérstaklega athygli mína var að músarrindill sat á bæjarburstinni, iðaði af fjöri og tísti og söng af öllum kröftum. Mér hló hugur í brjósti við þessa vingjarnlegu morgunkveðju. Ég hugsaði til þess, að staðfestuna, hugrekkið og tryggðina væri ekki ætíð að finna í ríkustum mæli þar sem glæsileikinn og veraldarálitið væru mest áberandi meðan allt lék í lyndi undir sumarsól. Á morgungöngunni milli Svínafells og Hofs leituðu hugrennningar mínar farvegs í ljóðformi.”

Músarrindillinn

 

Þar siturðu, rindill minn, rogginn á burst

og raular þinn unaðarbraginn,

þótt enn hafi´ ei vetur af fósturjörð flust

og freðinn og bleikur sé haginn.

Það fögnuði og aðdáum fyllir manns þel

að finna hve glaður og hreykinn

þú tístir og hoppar og terrir þitt stél.

Þú tælir mann næstum í leikinn.

 

Er sveif yfir grundir hið húmkalda haust

þá hurfu þeir spörvarnir stærri

sem hófu um sumardag hljómfagra raust.

Nú híma þeir ættjörðu fjarri.

En þú lést ei hrellast þótt hvítnaði grund,

slík hugprýði´ í brjósti þér leynist. –

Það birst hefur reynslunnar stundum á stund

að styrkastur smælinginn reynist.

Vinir Vatnajökuls