Sker í sjó, sandi eða jökli, þannig er það í Öræfasveitinni. Kennileiti sem rís í auðn nefnist sker. Í Skaftafellsjökli að austanverðu er svört rönd sem rekja má upp eftir jöklinum þar til kemur að skeri, um 9 km frá jökulsporði. Skerið rís úr jöklinum og ber heitið: “Skerið á milli skarðanna”. Vafamál er hvort hægt sé lengur að tala um sker, nær væri að kalla þetta fell. Fyrir mörgum árum síðan fór ég að þessu skeri í fylgt stúdents að nafni Tom Black frá Bandaríkjunum. Hann vann að mastersverkefni við Kvíárjökul austar í sveitinni og gaf sér tíma til að fylgja mér að skerinu til að kanna þar berglög. Ferð okkar var farin 22. júní, 1989. Ég var svo óheppinn að mínar myndir úr ferðinni mistókust. Nýverið, um 24 árum eftir að við vorum þarna á ferð, leitaði ég Tom uppi á netinu. Sú leit bar góðan árangur og í stuttu máli sagðist hann eiga einhvers staðar myndir. Eftir nokkra leit fann hann myndirnar, lét skanna þær og sendi mér. Nokkrar þeirra eru hér á síðunni (myndir 3 til 8). Þær eru athyglisverðar, m.a. vegna breytinga á jöklunum frá þessum tíma. Einnig náði hann mynd af Svarthamradal austan við Skaftafellsjökul frá góðu sjónarhorni (mynd 7). Hér fyrir neðan er fyrst berggrunnskort af Skerinu en síðan myndir sem gefa nokkra vitneskju um aðstæður þarna. Ferð okkar gekk vel en eina hættan á ferðinni var að ná landi í skerinu, þar var jökullinn sprunginn og þurfti aðgætni (mynd 4).

 

Mynd 1. Skerið á milli skarðanna. Myndun SM1 er móberg en SM2 eru þóleiíthraunlög, 6 talsins.

Mynd 2. Frumkort frá kortlagningu Dana um næstsíðustu aldamót. Þarna ber skerið nafn með rentu og gægist réttt upp úr jöklinum. Heimild: Landmælingar Íslands.

 

Mynd 3. Fremst í skerinu er þessi tindur.

Mynd 4. Aðkoman að skerinu var æði sprungin.

Mynd 5. Við öflun gagna í skerinu.

Mynd 6. Horft niður eftir röndinni í Skaftafellsjökli.

Mynd 7. Svarthamradalur í Hafrafelli, séður frá Skaftafellsjökli.

Mynd 8. Skerið á milli skarðanna, mynd tekin 1989.

Mynd 9. Skerið á milli skarðanna, mynd tekin 20. júlí, 2012. Nú er þarna að myndast fjall í jöklinum. Fram af brúninni að vestan fellur foss. Til hægri í forgrunni er Svarthamar.

 

 

Vinir Vatnajökuls