Segulsvið jarðar er öflugt og ver jörðina fyrir skaðlegri geislun frá sól (mynd af segulsviði hér). Væri ekki segulsvið hefðu kompásar varla verið fundnir upp. Segulsvið jarðar hefur varað í ármilljarða og það nær í gegnum jörðina póla á milli. Samt hefur það ekki alltaf verið stöðugt því öðru hverju hefur norðurskautið snúist og fært sig að suðurskauti og öfugt. Slík segulskipti eru mjög mikilvæg fyrir jarðfræði Íslands því þau má finna í hraunlögum. Nóg er af þeim á Íslandi, þau skipta þúsundum og eru jafnt á elstu svæðum sem þeim yngstu. Mest eru þetta basalthraunlög með járnríka kristalla (steindir), svo sem magnetít en þeir hafa segulsvið. Þegar magnetít myndast í storknandi hraunlagi snýst segulsvið þeirra í sömu stefnu og segulsvið jarðar. Basalthraunlög varðveita því stefnu segulsviðsins á storknunartímanum. Almennt geta hraunlög varðveitt forna segulstefnu svo skiptir hundruðum ármilljóna. Þar sem storknun hraunlaga á sér stað stuttu eftir eldgos mælast hraunlög í dag annað hvort með “rétta” (R) eða “öfuga” (Ö) segulstefnu eftir því hvort hún telst eins og núverandi segulsvið eða öfugt. Ef maður nú hefur til dæmis gil með 30 hraunlögum, sem eru segulmæld og reynast hafa R-Ö-R stefnu upp eftir gilinu (segjum 10 lög fyrir hverja stefnu), þá fær maður fram þversnið með segulstefnu sem hægt er að tengja við segultímakvarðann. Segultímakvarðinn er kvarði sem vísindamenn hafa byggt upp fyrir jörðina og sýnir hver segulstefnan var í mörg hundruð milljón ár. En til að tengja þversniðið úr gilinu við segultímatalið þarf eitt enn, nefnilega aldursgeiningar. Oft er unnt að mæla segulstefnu hraunlaga í mörkinni með handsegulmæli, einkum ef bergið er ungt og ferskt. Endanleg mæling á segulstefnu er þó framkvæmd í rannsóknarstofu því stundum veikist segulstefnan við utanaðkomandi áhrif, t.d. ummyndun vegna jarðhita. Sjá nánar um aldursgreiningu hraunlaga og segultímatal hér.

Vinir Vatnajökuls