Ragnar Stefánsson (1914–1994) var fæddur að Hæðum í Skaftafelli og höfðu forfeður hans búið þar um aldir. Foreldrar hans voru Stefán bóndi Benediktsson frá Brunnum og seinna Sléttaleiti í Suðursveit en móðir hans var Jóhanna Jónsdóttir frá Skaftafelli. Ragnar var yngstur fjögurra systkina og tók við búi foreldra sinna ásamt Jóni bróður sínum. Skaftafell er stór jörð með stórum fjöllum, aurasvæðum, jökulám og jöklum. Þeir sem eldri voru í Skaftafelli fræddu hann ungan um allt viðkomandi Skaftafellslandið. Hann þekkti öll örnefni og kennileiti enda hafði hann smalað landið frá unga aldri.

Ragnar Stefánsson.

Þegar Ragnar var að alast upp rann Skeiðará fram með Skaftafelli og var farartálmi sem heimamenn urðu að sætta sig við og aðlagast. Ragnar varð reyndur vatnamaður og fylgdi snemma ferðamönnum yfir Skeiðará. Skeiðarárhlaupum kynntist hann vel og ritaði um þau af eigin reynslu og skarpskyggni. Stundum reyndist auðveldara að fara með hesta yfir jökul heldur en Skeiðará og voru þá hoggin för í jökulísinn og hestarnir látnir fóta sig í þau á leið uppá ísflatann. Að búa í Skaftafelli þýddi mikla aðlögun að náttúrunni, jafnt ferðum á jökli, yfir jökulár, fjöruferðir og smölun heimalandsins. Þegar fækkaði í Skaftafelli og hugmyndir um þjóðgarð komu fram var það Ragnari ekki á móti skapi. Ragnar, ásamt Sigurði Þórarinssyni, jarðfræðingi, stóð framarlega í að gera Skaftafell að þjóðgarði og varð hann fyrsti þjóðgarðsvörður þar árið 1968 og starfað sem slíkur til ársins 1988 er Stefán Benediksson bróðursonur hans tók við. Í virðingarskyni var tindur í Miðfelli í Morsárdal nefndur Ragnarstindur honum til heiðurs. Ragnarstindur er nokkru austan við Miðfellstind. Ragnar hafði ríka frásagnargáfu, var minnugur, ræðinn, glöggur, ósérhlífinn og skemmtilegur í viðkynningu. Ragnar og kona hans Laufey voru sérlega gestrisin og hjálpsöm.

Ragnar og Laufey, mynd tekin 1988.

Vinir Vatnajökuls