Páll Þorsteinsson (1909–1990) var fæddur á Hnappavöllum, sonur Þorsteins Þorsteinssonar bónda og konu hans Guðrúnar Þorláksdóttur húsfreyju. Páll var ungur sendur til mennta og lauk prófi frá héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1930 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1934. Hann starfaði síðan við barnakennslu í Öræfum árin 1930-1932 og 1934-1945. Lengstum var hann bóndi á fæðingarstað sínum, Hnappavöllum, eða frá 1935 til 1980. Hann sat í hreppsnefnd Hofshrepps 1934-1982 og var hreppstjóri 1945-1984. Hann var aþingismaður fyrir fyrir Austur-Skaftfellinga og síðar Austurland í samfellt 32 ár, frá 1942-1974 (Framsóknarfl).

Páll nýtti starfskrafta sína í þágu sinnar sveitar og kjördæmis. Hugðarefni hans koma skýrt fram í ritum sem eftir hann liggja og varða byggðarlagið sem hann vann svo ötullega fyrir. Hann ritaði þjóðlífsþætti og tók m.a. saman ógrynni heimilda um samgöngur í Austur-Skaftafellssýslu allt frá landnámi. Auk þess liggur eftir hann fjöldi greina um atvinnuhætti og störf fólksins í landinu.

Meðal rita Páls eru:

Rauðilækur í héraði milli sanda, Skaftfellingur, 140-158, 8. árg. 1992.

Samgöngur  í Skaftafellssýslum,1986. Prentuð í Prentsmiðju Hornafjarðar og bundin inn af Sigurði Magnússyni bókbindara á Hofi.

Örnefni, Skaftfellingur, 125-133, 4. árg., 1984.

Atvinnuhættir í Austur-Skaftafellssýslu, 1981.

Kaupfélag Austur-Skaftfellinga sextíu ára, 1980.

Mælt mál, Páll Þorsteinsson, 1979 (100 eintök).

Þjóðlífsþættir, 1978. Örn og Örlygur.

 

 


 

Vinir Vatnajökuls