Fyrir göngufólk er Norðurdalur að sumu leyti best varðveitta leyndarmál Skaftafells. Norðurdalur er í útjaðri og liggur hátt að norðvestanverðu, eins konar vík eða öllu heldur tvær, sem skerast þar inn í Skaftafellsfjöllin í yfir 600 m hæð. Ætla mætti að mjög erfitt sé að komast í Norðurdal en svo er ekki. Að minnsta kosti er auðveldara að komast þangað en t.d. að Þumli. Leiðin liggur hjá Bæjarstaðaskógi upp Austurdal og þar uppá brúnir. Gengið á brúnum til þess hluta sem menn vilja komast á. Jökullinn leggst þétt upp að landinu en innst í giljum eru lón, stundum fimm talsins. Fyrir kemur að þau tæmast skyndilega og rennur þá vatnið undir ísinn að útfalli Skeiðarár. Fallegt er í Norðurdal en hrjóstrugt. Nú er boðið uppá ferðir yfir Skeiðarárjökul til Norðurdals að Skaftafelli. Sjá myndir frá Norðurdal hér.

Árið 1904 var verulega mikill snjór í Norðurdal. Heimild: kort Herforingjaráðs Dana, mælikv. 1:50.000 frá 1904.

Jökull hefur hopað svo um munar í Norðurdal síðustu hundrað ár eða svo en kortið hér að ofan sýnir útbreiðslu íss þar um 1904 þegar Danir kortlögðu Norðurdal. Nú er dalurinn og framhald hans til norðurs víða íslaus.

Vinir Vatnajökuls