Í jökulhlaupum, eins og til dæmis eru algeng í Skeiðará, berast iðulega stór ísbjörg fram á Skeiðarársand. Þau get stöðvast á sandinum og legið djúpt í hann. Smám saman bráðnar þó þessi ís og myndast þá djúpar lægðir. Í þær safnast efni úr umhverfinu en stundum getur lag af sandi legið efst en undir verið vatn eða leðja. Dæmi eru um að menn hafi riðið á Skeiðarársandi og horfið niður í slíkar gildrur.

Jökulker skammt fyrir neðan útfall Skeiðarár

Stórir ísjakar festust á Skeiðarársandi eftir stóra hlaupið 1996 og voru að bráðna sumarið eftir. Þegar ísinn hefur bráðnað og sandur hvílir yfir farinu myndast fyrirbæri sem Öræfingar nefna jakahveri og geta verið stórhættuleg. Stundum eru þetta grunnir pollar með sandbotni og villandi enda djúpur pyttur undir niðri.

Ísjaki að bráðna á Skeiðarársandi en stór hluti jakans er á nokkru dýpi.

Af loftmyndinni hér að neðan, sem tekin var af svæðinu 29. ágúst 1988, af Landmælingum Íslands, sést hvernig svæðið við útfall Skeiðarár er alsett förum eftir bráðnuð ísstykki.

Svæðið fyrir neðan útfall Skeiðarár, alsett jökulkerjum eftir eitt jökulhlaupið.

Vinir Vatnajökuls