Þegar gengið er inn fyrir Rauðhellra opnast til vesturs furðulegt svæði sem nefnist Kjós. Kjósin er hringlaga og í laginu eins og trekt. Til að glöggva sig á aðstæðum þarna er hægt, áður en lengra er haldið, að skoða myndasafnið fyrir Kjósina. Í Kjósinni eru upptök þess ljósa efnis sem borist hefur fram Morsárdalinn, allt frá Kjósarbotni. Skörp litaskil eru nokkru fyrir ofan botn frá dökku bergi upp í ljóst berg, eða frá blágrýti til líparíts. Dökka bergið samanstendur bæði af hraunlögum og móbergi, hvort tveggja basalt og er það framhald þess sem finnst í Rauðhellrum. Ljósa bergið er hins vegar líparít, að langmestu leyti móberg (líparítmóberg) og nær það uppá Kjósarbarma. Þetta líparít er til orðið við endurtekin eldgos í megineldstöð.

Horft inn í Kjósina frá Miðfelli.

Megineldstöðvar hafa líftíma af stærðargráðunni 1 milljón ár og í kjarna þeirra myndast oft umtalsverð sigdæld, samanber í Öræfajökulseldstöðinni. En í Kjósinni fer lítið fyrir sigdældinni eins og sjá má ef hraunlögin dökku eru skoðuð nánar. Svo óvenjulega vill til að hraunlögin dökku marka undirlag elstöðvarinnar og því má hér skoða botn hennar. Þungi gosefna í eldstöðinni hefur annað hvort ekki verið mjög mikill eða að lok kvikuhólfsins undir yfirborðinu (sem líparítið barst úr) hefur ekki gefið sig, aðeins sigið lítillega. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur hefur lýst megineldstöðvum af þessari gerð sem einni af fjórum tegundum megineldstöðva og er þessi gerð frekar sjaldgæf. Jarðlagasnið af Kjósinni sést á myndinni hér fyrir neðan. Athyglisvert er hvernig blágrýtishraunlögum undir eldstöðinni hallar inn Kjósina en ekki er algengt að hægt sé að skoða innviði megineldstöðva með þessum hætti.

Í innanverðri Kjósinni er hlutfall innskota allhátt. Þetta eru m.a. nær lóðréttir berggangar, sumir hverjir væntanlega aðfærsluæðar til hins forna yfirborðs. Einnig eru hallandi keilugangar og nær láréttar “sillur”. Meiriháttar innskot finnast einnig og er samsetning þeirra líklega ísúr, þ.e. mitt á milli þess að teljast basísk (basalt) eða súr (líparít).

Innviðir Kjósarinnar séðir úr lofti (ljósmynd Oddur Sigurðsson):

Innskot nálægt botni eldstöðvarinnar, er hringlaga um móbergslíparít.

Kjarni eldstöðvarinnar í Kjós.

 

Það virðist sem súr eldvirkni í Kjósareldstöðinni hafi byrjað með sprengigosum. Því er rökrétt að spyrja hvort slíkri sprengivirkni hafi fylgt myndun sigketils í eldstöðinni. Að því er séð verður í Kjósinni virðist ekki sem miðhluti hennar hafi smám saman gengið niður með hringlaga misgengjum yfir kvikuhólfi. En þar sem eldstöðin sést ekki að öllu leyti kann norðvesturhluti hennar, sem nær innundir Vatnajökul, að varðveita slík ummerki um sigketil en það er þó talið ólíklegt. Hinar fjölmörgu þunnu svörtu bergæðar sem skera líparítið kunna að marka útlínur loks á kvikuhólfi en lóðéttar hreyfingar um þær og/eða misgengi eru ekki fyrir hendi eða áberandi.

Vinir Vatnajökuls