Með jarðfræði er hér átt við berggrunnin í Skaftafelli og umhverfi, þ.e. hvernig berglög hafa hlaðist á milljónum ára og hvernig ásýnd landsins hefur mótast við rof jökla. Jarðsaga Öræfa nær 4-5 milljónir ára aftur í tímann og sú saga varðar endurtekin jökulskeið og hlýskeið og hrikalega mótun landsins sem enn er stórtæk. Skaftafell er einstaklega vel í sveit sett til að kanna jöklunarsöguna síðustu 3-4 milljónir ára. Virkar eldstöðvar eru allt í kringum Skaftafell. Hæst ber megineldstöð  í Öræfajökli, en þar var gríðarlegt sprengigos árið 1362 sem lagði sveitina í eyði en annað minna eldgos varð í elstöðinni árið 1727, fyrir ofan Sandfell.

Ég hóf vinnu mína við kortlagningu Skaftafells árið 1988 og er fyrsta færslan dagsett 12. júní það ár. Mest vann ég fyrstu 5 sumrin en stopulla frá 1993. Þegar hér var komið reyndist verkefnið umfangsmikið og flókið. Önnur verkefni kölluðu á og fjölskyldan tók að stækka. Lagði ég því vinnu við kortagerðina til hliðar um sinn en árið 2007 gaf ég út berggrunnskort af Skaftafelli sem nánar er fjallað um á þessari vefsíðu. Framfarir í úrvinnslu jarðfræðigagna í tölvum og kunnugleiki minn við slíka vinnslu (GIS) áttu stóran þátt í að mér reyndist unnt að ljúka berggrunnskorti af Skaftafelli, sjá kortið hér að neðan.

Berggrunnskort af Skaftafelli.

Vinir Vatnajökuls