Rauðhellrar nefnist vesturhlíð Morsárdals að innanverðu. Nokkrar skriður ganga niður úr Rauðhellrum og er Stóra-Skriða þeirra stærst. Að meginhluta eru Rauðhellrar gerðir af móbergi sem myndast hefur við gos undir jökli á nokkrum jökulskeiðum. Þegar innar kemur, á móts við Kjósina, byrja hraunlög að koma í ljós með móbergi inná milli laga. Myndin hér að neðan sýnir gott þversnið af Rauðhellrum. Sé vel að gáð sést hallandi lína nálægt neðri mörkum. Þetta kallast mislægi og er rofflötur eftir eitt jökulskeiðið á svæðinu. Hér er um rofflöt RF4 að ræða eða fjórða elsta rofflötinn sem kortlagður var. Næstu lög ofan á honum voru aldursgreind og reyndist aldur þeirra 2.82 milljón ár. Þetta þýðir að rofflöturinn myndaðist á jökulskeiði sem átti sér stað þegar ísöldin var hvað hörðust. Við himinn á myndinni fyrir neðan ber hins vegar líparít en þegar því gaus var hafin eldvirkni í Kjósareldstöðinni.

Rauðhellrar í Morsárdal. Ör vísar á gil þar sem þversnið KB var tekið.

Til að átta sig nánar á byggingu Rauðhellra er rétt að skoða berggrunnskortið hér að neðan af innanverðum Morsárdal.

Rauðhellrar í vestanverðum Morsárdal, á móts við Kjósina.

Teiknuð er lína, KB, sem teygir sig hátt upp í Rauðhellra.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig gilið lítur út sem snið KB var tekið í.

Gilið innst í Rauðhellrum þar sem snið KB var tekið.

Lína KB merkir að eftir gilinu hefur verið kannað jarðlagasnið eða þversnið upp í gegnum fjallið og sést það á myndinni hér fyrir neðan.

Þversnið jarðlaga, KB, fyrir Rauðhellra.

Í sniðinu sést að á skiptast hraunlög með móbergi á milli. Nokkur hraunlög saman flokkast sem “myndun” eða hraunamyndun. Móbergið inná milli laga er sömuleiðis flokkað sem myndun, þ.e. móbergsmyndun. Í sniði KB eru alls 4 hraunamyndanir og 5 móbergsmyndanir. Þessar myndanir eru merki um 4 hlýskeið og 5 jökulskeið. Jafnframt er undirlag hverrar hraunamyndunar rofflötur frá jökulskeiðinu sem á undan fór, sýnt með rauðri línu á korti. Skýringar fyrir jarðlagasnið eru á myndinni hér fyrir neðan. Snið KB er mjög aðgengilegt og með þeim auðveldari að kanna í Skaftafelli. Efst í sniðinu taka við jarðlög frá eldstöðinni í Kjós og er athyglisvert að sjá snöggar breytingar í skipan jarðlaga við tilkomu öflugra sprengigosa þar, þ.e. ljós súr lög.

Skýringar fyrir þversnið jarðlaga.

Vinir Vatnajökuls