Nýlega átti ég leið austur yfir Skeiðarársand, einn af stærstu söndum landsins. Ósnortin víðáttan á sandinum er sérstök, sem og fjalla- og jöklasýnin inn til landsins. Eftir því sem austar dróg tók að bera á smávöxnu birki ofan vegar. Hélst svo að Skeiðarárbrú, nema hvað birkið varð hávaxnara. Ánægjulegt var að sjá breiðan skóginn vera að myndast í annars mosavöxnu landi. Nú hefur Skeiðará breytt farvegi sínum og leitar vestur með jaðri Skeiðarárjökuls uns hún sameinast Gígjukvísl, þannig að Morsá ein fellur undir hið mikla brúarmannvirki á sandinum. Ólíklegt er að Skeiðará leggi á næstunni, jafnvel næstu áratugi, leið sína undir brúna sem við hana er kennd þar sem jöklar hopa nú mjög. Því er líklegt að birkiskógurinn kunni að fá að vera í friði fyrir ánni um langan tíma og þannig vaxa og breiðast frekar út. Ánægjan á ferð minni austur eftir minnkaði hins vegar þegar að Skeiðarárbrú kom, því þar skammt fyrir ofan blasti við skærgræn breiða af lúpínu í farvegi Morsár.

Birki vex hratt upp á Skeiðarársandi

Ekki verður lagt mat á það hér hvort lúpína henti til uppgræðslu, en flestir virðast sammála um að lúpína eigi ekki heima alls staðar. Lúpínan við Skeiðarárbrú er ættuð frá Morsárdal, sem telst ein helsta perla íslenskrar náttúru. Er miður að þar hafi lúpínu verið plantað en það var gert við Bæjarstaðaskóg eftir miðja síðustu öld. Um nokkurt skeið hefur, með takmörkuðum árangri, verið reynt að útrýma eða hefta útbreiðslu lúpínu í Morsárdal. Nú er lúpínan sem sagt komin í farveg Morsár og stefnir í átt að Skeiðarársandi. Ef ekkert verður að gert mun hún leggja undir sig sandinn. Það gæti gerst á tiltölulega skömmum tíma og því vaknar sú spurning hvort það sé æskilegt. Valið stendur um það hvort birki eigi að fá að breiðast frekar út en nú er eða hvort leyfa eigi lúpínu að taka yfir sandinn. Staðan núna er sú að það sé ekki of seint að stemma stigu við útbreiðslu lúpínunnar. En verði ekki fljótlega gripið til aðgerða má ljóst vera að nær útilokað verður að koma í veg fyrir að lúpínan þeki sandinn. Það myndi svo aftur koma í veg fyrir frekari dreifingu birkis, sem myndi flokkast undir umhverfisslys. Í ofanálag gæti útbreiðsla lúpínu þýtt að hlutar Vatnajökulsþjóðgarðs, eins og Skaftafell, munu ekki komast á heimsminjaskrá Unesco, eins og stefnt er að. Því er aðgerða þörf og eðlilegt að yfirvöld taki nú afstöðu og afstýri því umhverfisslysi á Skeiðarársandi sem lúpínan er.

Lúpína í farvegi Morsár, séð frá Skeiðarárbrú

 

Vinir Vatnajökuls