Fyrir rúmri öld eða rétt eftir aldamótin 1900 hófu Danir kortlagningu landsins og byrjuðu verk sitt á suðausturlandi. Um þetta leyti voru jöklar í hvað mestri útbreiðslu eftir langvinnt kuldakast og snjóþunga vetur áratugina áður. Það hitti því vel á og sýna kort Dana frá þessum tíma útbreiðslu jökla nokkurn veginn í hámarki. Talið er að um tvö þúsund ár séu síðan jöklar höfðu áður haft álíka útbreiðslu. Síðan hefur gengið á jöklana og sem stendur hopa þeir mjög ört. Á myndinni hér fyrir neðan sést lega jöklanna á korti Dana frá árinu 1904. Skaftafells- og Svínafellsjöklar ná saman og Hafrafell, sem nú má aka upp að, er þarna girt af jöklum. Athyglisvert er að sjá legu Skeiðarár á þessum tíma. Áin fellur suður með Skaftafellsbrekkum, þétt upp að Bæjargili og þar áfram til suðurs.

Skaftafells- og Svínafellsjökull náðu saman árið 1904. Kort fengið af vefsíðu Land- mælinga Íslands.

Hér að neðan sést mynd frá árinu 1929 þar sem Skaftafellsjökull og Svínafellsjökull ná enn saman þannig að ekki er gengt í Hafrafell nema á ís og svo hélst þar til árið 1940. Myndin er sennilega tekin af símavinnumönnum. Sjá má nokkra símastaura í sandinum sé vel að gáð.

Myndin er sennilega tekin 1929.

Loftmyndin hér að neðan var tekin 29. ágúst 1986 (LMÍ) og sýnir aðstæður við Skaftafellsjökul eins og þær voru þá. Lónið enn ekki sýnilegt og gróður hefur ekki tekið við sér að ráði.

Skaftafellsjökull, 1986, talsvert tekinn að hopa inn með Skaftafellsheiði, á móts við Hrútagil.

Til samanburðar sést hér að neðan lega Skaftafellsjökuls á árinu 2012 þar sem gengt er langt inn með Hafrafelli og stórt lón er tekið að myndast framan við jökulinn miðjann. Að baki jökulgarðsins framan við Skaftafellsjökul lækkar landið mikið þannig að garðurinn stíflar uppi lón og smærri vötn, sum tær en önnur gruggug af jökulaur. Ætla má að lónið stækki frekar en hitt en þó kynni það að grafast út nái Skaftafellsá að ryðja sér dýpri farveg til suðurs.

Lón hefur myndast framan við Skaftafellsjökul.

Lón er byrjað að myndast við Svínafellsjökul.

Til að komast að Svínafellsjökli er ekið að Hafrafelli eftir malarvegi frá þjóðvegi 1, rétt austan við Skaftafellsá. Við Hafrafell er gott bílastæði við lónið en framan við Svínafellsjökul hefur það stækkað ört á undanförnum árum og ef svo fer sem horfir verður þarna stórt vatn innan fárra ára.

Vinir Vatnajökuls