Skaftafell.org

Á vefsíðunni er m. a. kynning á jarðfræði Skaftafells, fjallað um berggrunn og jarðsögu, og sýndir staðir á svæðinu sem liggja fjarri alfaraleið.


Jarðfræði Skaftafells

Dalir, fjöll, jöklar, jökulár og gróður er það sem fyrir augu ber í Skaftafelli. Allt tvinnast þetta saman því jöklar og jökulár mótuðu dalina og gróðurinn gæddi þá lífi. Undir jarðfræði Skaftafells falla ýmsir mótunarþættir svo sem, eldvirkni og jökulrof. Hinar fjölbreyttu berggerðir varðveita upplýsingar um jarðsöguna. Hve langt skyldi vera síðan landið hér tók að myndast? Hver hafa áhrif jöklanna verið á mótun landsins? Hvað gerist þegar eldgos verður undir jökli? Til að svara slíkum spurningum röltir jarðfræðingur inn í Morsárdal með hamar í hönd og ber í grjót til að fá fram ferskt brot af berginu. Það lærist fljótt að greina í sundur helstu einingar, svo sem hraunlög, bergganga, setberg og hvers kyns móberg. Þessar ólíku berggerðir veita upplýsingar um umhverfið á myndunartíma og kortlagning þeirra í aldursröð segir til um jarðsögu svæðisins.

Myndir

Myndirnar sýna Skaftafell frá mörgum mismunandi sjónarhornum en þær fyrstu eru frá árinu 1988. Þær voru teknar við kortlagningu jarðlaga víðs vegar í Skaftafelli, reyndar allt frá Svínafelli í austri til Skaftafellsfjalla í vestri. Klettaklifur á fáförnum slóðum gaf oft tilefni til töku mynda af umhverfinu og því sem fyrir augu bar. Á þessum tíma hefur landið tekið stórfelldum breytingum. Jöklar hafa hopað umtalsvert, lón tekið að myndast að baki jökulgarða og stórfljót á borð við Skeiðará hefur breytt farvegi sínum og fellur ekki lengur undir lengstu brú landsins á Skeiðarársandi.

Kort

Hér eru jarðfræðikort af berggrunni Skaftafells. Þetta eru kort sem sýna hvaða berglög eru á svæðinu. Sért þú í vafa hvers kyns berg verður á vegi þínum er fróðlegt að geta skoðað berggrunnskort af svæðinu. Í fyrstu verður gerð grein fyrir berggrunni Jökulfells, Rauðhellra og Kjósar. Einnig eru sýnd kort af berggrunni Hafrafells og Svínafells. Kortin eru tekin úr berggrunnskorti í mælikvarða 1:25.000 sem er til sölu í Skaftafellsstofu og bókaverslunum í Reykjavík. Að auki er kortið fáanlegt í fræðasetrinu í Skaftafelli. Kortin veita sýn á byggingu jarðlaga þar sem á skiptast fjölmörg hlýskeið og jökulskeið en óvíða finnast jafn skýr merki um ísöldina sem nú ríkir og einmitt á þessu svæði.

Vinir Vatnajökuls